Þróunarkenningin dregin í efa í skólum í Kansas

Menntamálaráð í Kansas í Bandaríkjunum hefur samþykkt vísindakennsluskrá fyrir opinbera grunnskóla í ríkinu þar sem þróunarkenningin er dregin í efa. Fylgismenn þessarar afstöðu segjast einungis vilja kynna fyrir nemendum lögmætar, vísindalegar spurningar um þróun.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.

Í Pennsylvaníu náðu átta menntamálaráðsfulltrúar, er samþykkt höfðu svipaðar breytingar á kennsluskrá, ekki endurkjöri í kosningum í gær. Undanfarið ár hefur það verið skylda í skólum í Dover í Pennsylvaníu að í líffræði sé lesin upp yfirlýsing um svokallaða vitshönnunartilgátu. Kennurum hefur verið skylt að gera nemendum grein fyrir því að þróunarkenning Darwins sé ósönnuð og að alheimurinn sé svo flókinn að hann kunni að hafa verið skapaður af æðra máttarvaldi.

Í síðasta mánuði fóru foreldrar nemenda í Dover í mál við skólayfirvöld og sökuðu þau um að blanda trú og sköpunarsögunni í námið, sem væri brot á bandarísku stjórnarskránni sem kveður á um aðskilnað ríkis og kirkju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka