Bandaríkjamenn halda völdum sínum yfir netinu

Fjöldi háttsettra manna eru viðstaddir á leiðtogafundinum sem hófst í …
Fjöldi háttsettra manna eru viðstaddir á leiðtogafundinum sem hófst í Túnis í dag. Frá vinstri: Toshio Utsumi, framkvæmdastjóri alþjóðlega fjarskiptasambandsins, Kofi Annan, framkvæmdastjóri SÞ, og Zine El Abidine Ben Ali, forseti Túnis. AP

Bandaríkjamenn höfðu í betur í baráttunni um hvaða þjóð eigi að stýra netinu, þrátt fyrir að margar þjóðir hafi sýnt þeim andstöðu. Samkomulag náðist á síðustu stundu fyrir leiðtogafund um netið sem hófst í Túnis í dag. Samningamenn samþykktu að láta Bandaríkjamenn halda utan um tæknihluta netsins.

Þá verður settur á stofn alþjóðlegur umræðufundur þar sem málefni netsins verða rædd. Vald fundarins er þó takmarkað þar sem ákvarðanir sem verða teknar á fundinum verða ekki bindandi.

Samningurinn gerir mönnum nú kleift að einbeita sér að því hvernig fátækar þjóðir geti notið góðs af þeirri stafrænu byltingu sem hefur orðið.

Von er á um 10.000 fulltrúum, þ.á.m. þjóðarleiðtogum, tæknifræðingum og baráttumönnum á ráðstefnuna, sem ber yfirskriftina „Heimsfundur um upplýsingasamfélagið“. Ráðstefnan stendur í þrjá daga og hófst hún formlega í dag.

Óttast var að deilur varðandi hverjir ættu að fara með stjórn netsins myndu yfirskyggja ráðstefnuna, en þjóðir eins og Kína og Íran hafa þrýst á það að alþjóðleg stofnun undir stjórn Sameinuðu þjóðanna ætti að sjá um netið.

Bandaríkjamenn tóku þetta ekki í mál og sögðu þeir að þetta myndi trufla tækniþróun netsins auk þess sem ritskoðun myndi aukast vegna ólýðræðislegra ríkisstjórna.

Samkvæmt samkomulaginu sem náðist þá er dagleg stjórnun netsins í höndum netfyrirtækis í Kaliforníu sem heyrir undir Bandaríkjastjórn.

Fréttavefur BBC greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert