Samkvæmt þjóðskrá hinn 31. desember 2004 voru nöfnin Jón og Guðrún algengustu eiginnöfn á Íslandi. Verulegur munur reynist vera á nöfnum eftir aldri og í yngstu aldurshópunum hefur dregið verulega úr tíðni gamalgróinna mannanafna. Í yngstu aldurshópunum hafa mörg þessara nafna nú vikið fyrir nöfnum sem engir eða aðeins örfáir einstaklingar báru fyrir nokkrum áratugum síðan. Dæmi um þetta eru nöfnin Birta og Aron svo tekin séu dæmi af tveimur mannanöfnum sem notið hafa mikilla vinsælda á undanförnum árum.
Þetta kemur fram í nýju riti Hagstofunnar um nafngiftir, sem kom út í dag. Þar kemur fram, að önnur breyting á nafnahefðum séu ört vaxandi vinsældir tvínefna. Rúmlega 80% barna á aldrinum 0–4 ára bera tvö eiginnöfn samanborið við innan við 20% einstaklinga yfir 85 ára aldri.
Um aldaraðir hafa nöfnin Jón og Guðrún verið efst á lista yfir algeng nöfn á Íslandi. Samkvæmt manntalinu 1703 hétu 23,5% allra karla Jón og 19,7% allra kvenna báru nafnið Guðrún. Verulega dró úr tíðni þessara nafna á 18. og 19. öld en í manntali 1801 hétu 21,2% karla Jón og 9,6% í manntali 1901. Milli þessara tveggja manntala lækkaði tíðni Guðrúnarnafnsins úr 17,4% í 10,5%. Á 20. öldinni dró áfram úr vinsældum þessara nafna og í árslok 2004 hétu 3,8% allra karla Jón og 3,6% allra kvenna Guðrún.
Hagstofan segir, að tíðni gamalgróinna nafna hafi lækkað miðað við það sem áður var og mörg áður algeng nöfn hafi nú vikið fyrir tískunöfnum sem engir eða aðeins örfáir einstaklingar báru fyrir nokkrum áratugum. Dæmi um þetta séu nöfnin Birta og Aron. Áberandi sé að nokkur biblíunöfn, sem notið hafi vinsælda í mörgum Evrópulöndum um langt skeið, njóti nú sívaxandi vindsælda hér á landi. Dæmi um þetta séu nöfnin Daníel, Davíð, Rakel og Sara en þessi nöfn séu afar sjaldgæf í elstu aldurshópunum. Í aldurshópnum 0–4 ára eru þrjú algengustu einnefni meðal stúlkna Sara, Freyja og Andrea en Margrét, Hrafnhildur og Birta í aldurshópnum 5–9 og Kristín, Katrín, Guðrún og Berglind meðal 10–14 ára.
Fyrr á öldum heyrði til undantekninga að íslensk börn væru skírð tveimur nöfnum en nú bera 55,5% landsmanna tvö eiginnöfn. Tiltölulega litlar breytingar hafa orðið á algengustu seinni nöfnum í tvínefnum. Áberandi vinsælust eru stutt oft einkvæða nöfn á borð við Þór, Már, Örn, Björk, Ósk og Rós. Algengustu tvínefni meðal þjóðarinnar í heild eru nú Jón Þór og Anna María en meðal þeirra yngstu Andri Snær og Eva María.
Mannanöfn og nafngjafir á Íslandi samkvæmt þjóðskrá 31. desember 2004