Skattbyrði öryrkja hefur stóraukist á Íslandi

Samkvæmt skýrslu Stefáns Ólafssonar, prófessors, um örorku og velferð á Íslandi sem birt var í morgun er Ísland langt á eftir í þjónustu sinni við öryrkja ef miðað er við önnur OECD-lönd. Í skýrslunni segir meðal annars að skattbyrði öryrkja hafi stóraukist frá 1995 um leið og stuðningur af vaxtabótum og barnabótum hafi minnkað.

Öryrkjar með lægstu tekjur voru skattlausir á fyrri hluta tímabilsins frá 1995 til 2004 en greiða nú umtalsverðan skatt af tekjum sínum, vegna raunlækkunar skattfrelsismarka.

Skattbyrði einhleypra öryrkja jókst að jafnaði um 131,1% á þessu tímabili segir í skýrslunni. Ennfremur segir í skýrslunni að gríðarleg aukning á skattbyrði öryrkja hafi þannig stórlega skert kjör þeirra á síðasta áratug.

„Almennt hefur tekjuþróun öryrkja verið óhagstæð frá 1995 til 2004. Markmið laga um málefni öryrkja frá 1992, um að kjör hópsins skuli færð að meðalkjörum samfélagsborgaranna hafa ekki náðst, nema síður sé. Megin ástæða þess er sú, að lífeyrir almannatrygginga hefur ekki hækkað nógu mikið og skattbyrði öryrkja hefur stóraukist,” segir Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert