Bush: Stærstur hluti upplýsinga um gereyðingarvopn Íraka var rangur

George W. Bush, Bandaríkjaforseti.
George W. Bush, Bandaríkjaforseti. AP

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, viðurkenndi í ræðu í dag, að stærstur hluti upplýsinga, sem bandaríska leyniþjónustan aflaði um gereyðingarvopn í Írak hafi verið rangur en ítrekaði samt að innrásin í Írak hafi verið réttlætanleg. „Það stafaði ógn af Saddam og bandaríska þjóðin og heimurinn eru öruggari vegna þess að hann er ekki lengur við völd," sagði Bush.

„Margar leyniþjónustustofnanir mátu það svo, að Saddam Hussein réði yfir gereyðingarvopnum og það er rétt, að stór hluti þessara upplýsinga reyndist rangur," sagði Bush í ræðu í The Woodrow Wilson Center í Washington í dag.

Hann fullyrti hins vegar að Saddam hafi beðið eftir tækifæri til að hefja gereyðingarvopnaframleiðslu að nýju.

„Sem forseti þá ber ég ábyrgð á þeirri ákvörðun að fara inn í Írak. Og ég ber einnig ábyrgð á því að bæta fyrir það sem miður fór með því að endurskipuleggja leyniþjónustu okkar. Það erum við að gera."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert