Bush leyfði Þjóðaröyggisstofnun Bandaríkjanna að hlera samskipti manna

John McCain, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins, hefur krafist skýringa á fréttum um …
John McCain, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins, hefur krafist skýringa á fréttum um eftirlit NSA. Reuters

Bandarískir þingmenn, þar á meðal úr flokki repúblikana, hafa í dag krafið George W. Bush, forseta, skýringa á fréttum blaðsins New York Times um að hann hafi gefið Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, leyfi til að hlera samskipti fólks í Bandaríkjunum án sérstaks dómsúrskurðar. Leyfið gaf forsetinn eftir hermdarverkin í New York og Washington 11. september árið 2001. Að sögn New York Times hefur NSA hlerað samskipti hundruð einstaklinga í Bandaríkjunum á síðastliðnum þremur árum.

Fram til þessa hafði NSA einungis fengið leyfi til að hlera samskipti manna í erlendum sendiráðum.

Breska ríkisútvarpið, BBC, segir að John McCain, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins, hafi krafist skýringa, og Arlen Specter, sem situr úr dómsmálanefnd deildarinnar, sagði að þetta væri óviðeigandi.

Fyrr í dag hafnaði öldungadeildin að endurnýja ýmsar eftirlitsheimildir, samkvæmt lögum um varnir gegn hryðjuverkum, á þeirri forsendu að með þeim væri of langt seilst inn í friðhelgi einkalífs almennra borgara. Þykir þetta mikill ósigur fyrir Bush og stjórn hans sem hafa beitt sér mjög fyrir því að umræddar heimildir verði varanlegar.

Aðspurð um málið sagði Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að Bush hefði aldrei gefið nokkurri stofnun skipun um að stunda ólöglega starfsemi. Samkvæmt heimildum New York Times hafa nokkrir starfsmenn Þjóðaröryggisstofnunarinnar, sem þekktu til aðgerðanna, verið spurðir að því hvort eftirlit með símtölum og tölvuskeytum brjóti í bága við stjórnarskránna.

Fram til þessa hefur einungis verið hægt að njósna og hafa eftirlit með ákveðnum aðilum á bandarískri grund eftir að sérstakur leynilegur dómstóll hefur gefið leyfi til þess.

Aðspurð um málið svaraði Rice því til, að forsetinn hefði farið að lögum í öllum aðgerðum sínum. Að öðru leyti neitaði hún að svara í smáatriðum fréttum New York Times af málinu.

Að sögn New York Times eru heimildarmenn blaðsins rétt rúmlega tíu núverandi og fyrrverandi starfsmenn NSA, sem þekktu til aðgerðanna. Að því er heimildarmennirnir sögðu mun stofnunin hafa hlerað samskipti um 500 einstaklinga í Bandaríkjunum í leit sinni að sönnunargögnum sem tengdi þá við hryðjuverkastarfsemi. Þá hafi stofnunin náð að hlera samskipti allt að 5.000 til 7000 manna, sem grunaðir eru um tengsl við hryðjuverkahópa í einu.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert