Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, nýkjörin ungfrú heimur 2005, fékk höfðinglegar móttökur í Vetrargarðinum í Smáralind um hálfsjöleytið í kvöld. Talið er að um 10 þúsund manns hafi beðið fegurðardrottningarinnar í kvöld og tóku á móti henni með miklum fagnaðarlátum og lófataki. Unnur virtist alsæl með móttökurnar. Brosti hún breitt og sendi viðstöddum fingurkossa.
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, tók m.a. á móti Unni Birnu þegar hún kom í Smáralind, færði henni kveðjur ríkisstjórnarinnar og færði henni bók um verk Kjarvals sem hann sagði hafa túlkað íslenska fegurð manna best.
Julia Morley, eigandi Miss World fegurðarsamkeppninnar, var í fylgd með Unni Birnu.