Gunnar Egilsson pólfari bætti eigið heimsmet

Gunnar Egilsson bílasmiður og pólfari.
Gunnar Egilsson bílasmiður og pólfari. mbl.is

Gunnar Egilsson pólfari renndi í kvöld í höfn í Patriot Hill, sem var upphafspunktur leiðangurs hans og fimm Breta á sérútbúinni bifreið á Suðurpólinn, á enn nýju heimsmeti, 45 klst. og 35 mínútum. Bættu þeir þar með eigið heimsmet um 24 klst og 25 mínútur. Fréttavefurinn suðurland.net segir frá því að Gunnar hafi hringt í kunningja sinn Arngrím Hermannsson, við komu sína til Patriot Hill og greint honum frá heimsmetinu.

Gunnar sat sjálfur undir stýri rúmlega 1000 km. af þeim 1170 km sem hann og félagar hans lögðu að baki frá suðurpólnum. Gunnar svaf aðeins í eina klukkustund af þeim 45 klst og 35 mínútum sem ferðin tók. Með Gunnari í för voru fimm Bretar en Gunnar sérsmíðaði bílinn sem er nákvæm eftirlíking bíls sem hann á fyrir á Íslandi.

Arngrímur er sjálfur pólfari og göngugarpur og segir hann ennfremur, á sudurland.is, að þetta tímamet verði erfitt að bæta héðan í frá á landfarartæki. Til marks um afrekið varð gildandi hraðamet á þessari leið, áður en þeir félagar lögðu í hann á ofurjeppanum Ic Cool 2, 24 dagar og hafði það staðið frá því í janúar 1992.

Gunnar tileinkar hinum aldna pólfara Norman D. Vaughan þetta heimsmet, en Vaughan á 100 ára afmæli í dag og hefur fylgst grannt með leiðangrinum. Sjálfur fór Vaughan í leiðangur á Suðurpólinn á hundasleða árin 1928-1930 og er þekktur fyrir þrekvirki sín en hann er enn að þrátt fyrir háan aldur. Heimasíða Normans Vaughan

Pólfarinn aldni Norman Vaughan.
Pólfarinn aldni Norman Vaughan. sudurland.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert