Hugmyndir um að fækka einingum í kennslu á þriðja erlenda tungumálinu áhyggjuefni

Auður Hauksdóttir.
Auður Hauksdóttir. mbl.is/Eyþór

Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, segir hugmyndir í breyttri námsskipan til stúdentsprófs, um að fækka einingum í kennslu á þriðja erlenda tungumálinu, mikið áhyggjuefni. Er þar átt við frönsku, þýsku og spænsku.

Samkvæmt drögunum á að skera niður kennslu í málunum um helming á náttúrufræðibraut og úr tólf einingum niður í níu á félagsfræðibraut. Þannig yrði aðeins um tveggja til þriggja anna nám að ræða.

Auður segir Íslendinga hafa þá sérstöðu að kunna töluvert fyrir sér í erlendum tungumálum enda hafi þeir lengi lært þrjú til fjögur tungumál í grunn- og framhaldsskólum. Evrópulönd séu að auka sína tungumálakennslu og samskipti Íslendinga við útlönd séu meiri en nokkru sinni og því skjóti þetta skökku við.

„Mér finnst þetta mjög slysalegt og ekki fyrirséð hvaða áleiðingar þetta mun hafa í menningarlegu tilliti. Einnig hef ég áhyggjur af tilfærslu í kennslu ensku og dönsku frá framhaldsskólastiginu til efstu bekkja grunnskólans. Fram til þessa hafa Íslendingar sótt í framhaldsnám til Evrópulanda, t.d. er helmingur íslenskra námsmanna í námi erlendis í Danmörku og ég óttast að þessi tilfærsla rýri námið og komi niður á dönskukunnáttunni, en það kann að takmarka möguleika íslenskra ungmenna vegna ónógs undirbúnings. Þar er verið að færa kennslu á framhaldsskólastigi niður á grunnskólastig og við vitum fyrir að grunnskólinn á í vanda vegna skorts á fagmenntuðum kennurum í þessum kennslugreinum," sagði Auður við Fréttavef Morgunblaðsins.

Auður segist hafa efasemdir um að grunnskólar séu, eins og sakir standa, í stakk búnir til að axla þessa ábyrgð og manna kennslu með sérhæfðum tungumálakennurum. Leysa eigi vandann með endurmenntun kennara en hún óttist að það muni ekki duga til og bendir á, að þegar danskan hafi verið færð niður í 10. ára bekk á sínum tíma hafi orðið mikil eftirspurn eftir dönskukennurum sem hafi ekki tekist fyllilega að anna. Fyrir vikið hafi umbæturnar ekki náð tilætluðum árangri.

„Mun minni dönskukennsla í framhaldsskólum hafa áhrif á háskólagöngu Íslendinga í Danmörku? Ég spyr mig að því," segir Auður, en Íslendingar hafi til þessa haft greiðan aðgang að háskólum þar vegna dönskunáms í íslenskum skólum.

Auður segir að fólk verði að spyrja sig að því hvaða gildi það hafi fyrir íslenskt þjóðfélag að fólk hafi lagt stund á framhaldsnám í ólíkum löndum og fært sína reynslu og þekkingu til Íslands. Slíkt auðgi menningu og gefi ný tækifæri í atvinnulífi og á öllum sviðum þjóðlífsins. Það sé grundvallaratriði í háskólanámi að fólk sé vel fært í tungumáli þess lands sem það nemur í.

„Það er svo erfitt að mæla menningarlegan fjölbreytileika en við sjáum áhrif þess á þjóðfélagið þegar fólk kynnist löndum og menningu annarra þjóða [...] það er ómetanleg þjóðarsameign að hafa fjölbreytilega, menningarlega sýn og geta haft samskipti við marga," segir Auður.

Auður segir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur vera að vinna að því að koma ábendingum sínum skriflega á framfæri, bæði til menntamálaráðuneytisins og fjölmiðla. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er rannsóknastofnun innan Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands og rannsóknavettvangur kennara deildarinnar sem fást við erlend tungumál og fornfræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert