Tvö innbrot í Reykjavík; söfnunarbauk Grafarvogskirkju stolið

Lögreglunni í Reykjavík var tilkynnt um tvö innbrot í höfuðborginni í nótt. Í fyrra tilvikinu var um að ræða innbrot í myndbandaleigu í Vesturbænum um klukkan 1:30 í nótt. Ekki er ljóst hverju var stolið. Þá var tilkynnt um innbrot í Grafarvogskirkju klukkan 3:12 í nótt. Þjófarnir brutu rúðu á kirkjunni til að komast inn og höfðu þeir söfnunarbauk kirkjunnar á brott með sér.

Að sögn lögreglunnar í Reykjavík sást til þriggja ungra pilta á hlaupum frá myndbandaleigunni í nótt. Ekki er ljóst hvort einhverju var stolið en talið er að þeir hafi tekið skiptimynt úr kassa auk þess sem rótað var í hillum myndbandaleigunnar.

Þá er ekki ljóst hversu mikið fé var í söfnunarbauk Grafarvogskirkju.

Unnið er að rannsókn beggja mála, að sögn lögreglunnar í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert