Mohamed ElBaradei segir að heimurinn sé að missa þolinmæðina gagnvart Íran

Mohamed ElBaradei segir að Íran, Evrópa og Bandaríkin verði að …
Mohamed ElBaradei segir að Íran, Evrópa og Bandaríkin verði að vinna saman að lausn kjarnorkudeilunnar til þess að koma í veg fyrir aukna spennu í Miðausturlöndum. Reuters

Mohamed ElBaradei, yfirmaður alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, varaði Írana við því í dag að þolinmæði leiðtoga heimsins gagnvart stefnu íranskra stjórnvalda í kjarnorkumálum væri á þrotum. ElBaradei hvatti Írana til þess að aðstoða stofnunina við rannsóknina á starfsemi Írana, en þetta kom fram í sjónvarpsviðtali við Sky fréttastofuna.

„Þolinmæði mín er á þrotum, þolinmæði alþjóðasamfélagsins er á þrotum,“ sagði ElBaradei. Hann hefur mótmælt fyrirhuguðum aðgerðum Írans um að hefja kjarnorkurannsóknir og að auðga úran, en slíkt getur leitt til framleiðslu á kjarnorkuvopnum.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Condoleezza Rice, sagði sl. fimmtudag að tíminn væri að renna úr greipum Írana.

„Allir myndu vilja sjá stjórn sem fullvissaði alþjóðasamfélagið um það að áætlun Írana væri í friðsamlegum tilgangi og það eru enn nokkur atriði sem við erum að skoða,“ sagði ElBaradei. „Menn eru sammála um það að auðgun úrans í Íran nú um mundir sé grafalvarlegt mál.“

Hann segir að í Íran, Evrópa og Bandaríkin verði að vinna saman að lausn kjarnorkudeilunnar til þess að koma í veg fyrir aukna spennu í Miðausturlöndum.

„Kjarnorkumálið er eitt mál en við þurfum að útkljá mörg mál. Við erum enn með Írak, við erum enn með málið í Palestínu, við erum enn með Afganistan og ég tel að við höfum ekki efni á auka átök á svæðinu,“ segir ElBaradei. „Mig óar við afleiðingunum, svo fólk þarf að hugsa sig um tvisvar áður en að þau ætla sér að hefja átök.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert