Ofbeldisfullir tölvuleikir kunna að valda því að fólk sem leikur þá verður árásargjarnara en ella, að því er fram kemur í niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Fyrri rannsóknir hafa leitt í ljós að þeir sem leika slíka leiki eru líklegri en aðrir til að vera árásargjarnir, en því hefur verið haldið fram að ekki sé um orsakatengsl að ræða heldur sækist árásargjarnt fólk eftir því að leika ofbeldisfulla tölvuleiki.
Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, en niðurstöðurnar eru birtar á vef vísindaritsins New Scientist.
Nýja rannsóknin var gerð við Háskólann í Missouri í Columbia. Fylgst var með heilastarfsemi í 39 manns er léku tölvuleiki. Niðurstöðurnar benda til að orsakatengsl séu á milli tölvuleikjanna og árásargirninnar, það er að segja, að leikirnir leiði til árásargirninnar, en ekki öfugt.
Fylgst var með heilastarfsemi sem endurspeglar tilfinningaviðbrögð við myndum. Þegar fólki sem spilað hafði ofbeldisfulla tölvuleiki voru sýndar myndir af raunverulegu ofbeldi sýndi fólkið skert viðbrögð. En þegar fólkinu voru sýndar aðrar óþægilegar myndir eins og til dæmis af dauðum dýrum eða veikum börnum voru viðbrögð þess mun eðlilegri.
Þeir sem sýnt höfðu skertust tilfinningaviðbrögð við raunverulegu ofbeldi voru ennfremur líklegastir til að refsa ímynduðum andstæðingi grimmilegar en aðrir.
Sálfræðingurinn Bruce Bartholow, sem stjórnaði gerð rannsóknarinnar, segir: „Það ég best veit er þetta fyrsta rannsóknin sem sýnir að ofbeldisfullir leikir leiða til heilastarfsemi sem getur sagt fyrir um árásargirni.“ Niðurstöður rannsóknarinnar verða birtar í heild í Journal of Experimental Social Psychology.