76 ára gamall maður tekinn af lífi í Kalíforníu

Clarence Ray Allen.
Clarence Ray Allen. AP

Clarence Ray Allen, 76 ára gamall fangi á dauðadeild, var tekinn af lífi í morgun í San Quentin fangelsinu nálægt San Francisco í Kalíforníu. Allen var blindur og bundinn í hjólastól. Lögmenn hans höfðu beðið honum vægðar sökum heilsu hans og aldurs en þeim beiðnum var hafnað.

Allen var dæmdur til dauða fyrir að myrða þrjár manneskjur árið 1980 en þá afplánaði hann lífstíðardóm fyrir annað morð.

Allen er næst elsti maðurinn sem tekinn er af lífi frá því dauðarefsing var tekin upp að nýju í Bandaríkjunum árið 1976.

Allen var upphaflega dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að láta myrða 17 ára vinstúlku sonar síns en hann óttaðist að stúlkan myndi veita lögreglu upplýsingar um innbrot sem hann framdi.

Árið 1980 lét Allen myrða annað vitni að innbrotinu. Leigumorðingi skaut manninn til bana og tvo sjónarvotta að auki í matvöruverslun. Fyrir þetta var Allen dæmdur til dauða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert