Þrettán rif brotin en mikilvægustu líffæri sluppu Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður, segir að hann hafi í raun verið stálheppinn þegar bíll hans fór út af veginum við Húnaver á mánudagskvöld. Sagði Steingrímur við blaðamenn á sjúkrastofu sinni á Landspítalanum við Hringbraut í dag, að brjóstkassinn vinstra megin væri mikið brotinn; ein þrettán rif og viðbein væru brotin en mikilvægustu líffærin hefðu sloppið og hryggurinn og hálsinn væru óbrotnir.
Hann sagðist væntanlega þurfa að vera á sjúkrahúsi í allmarga daga ef ekki vikur og síðan tæki við endurhæfing. Þá hefði hann verið varaður við því að hann gæti orðið kvalinn nokkuð lengi enda hefðu mörg bein brotnað.
Steingrímur sagðist muna eftir atvikunum sem urðu til þess að hann missti stjórn á bílnum og fór út af veginum. „Ég man nú fyrst og fremst eftir fyrsta heljarstökkinu sem bíllinn tók og eftir að ég raknaði við mér og bíllinn var á hjólunum í gangi og á hjólunum á árbakkanum. Það var allt mikið lán að að hann skyldi snúa þannig og ég náði að krafla í símann; vel að merkja gamla góða NMT kerfið því gemsinn var nú fokinn út í veður og vind auk þess sem eru einhver göt í netinu á þessum slóðum og ég ætla vona að menn starfræki langdræga kerfið þar til eitthvað annað kemur í staðinn."
Steingrímur sagði að hann hefði ekki verið á mikilli ferð þegar slysið varð en hann hefði þó vafalaust getað farið varlegar því aðstæður voru mjög slæmar. „Ef það er eitthvað sem þetta kennir manni þá er það að aldrei er of varlega farið og stundum dugar það ekki til því það geta komið upp algerlega óviðráðanlegar aðstæður. Ég held að það hafi ekki verið nein leið að hafa stjórn á bílnum eftir að hann fór af stað."
Loftpúði í bílnum blés ekki út og þak hans lagðist niður. Þurfti því að klippa hluta þaksins af til að ná Steingrími út. Hann sagði að stuttan tíma hefði tekið fyrir lögreglu og sjúkralið að koma á staðinn. Lögregla lagði af stað bæði frá Blönduósi og Sauðárkróki en Steingrímur sagðist ekki hafa nægilega skýr í kollinum, fyrst eftir slysið, og því ekki getað gert sér grein fyrir því hvort hann hefði verið að koma ofan af Öxnadalsheiði eða úr Vatnsskarði. Því lagði lögregla af stað í báðar áttir.
Þegar Steingrímur var spurður hvort hann þakkaði það góðu líkamlegu ástandi hvað hann slapp vel svaraði hann að það spillti sjálfsagt ekki fyrir en helst mætti væntanlega þakka það að bíllinn hefði verið stór og sterkur.
„Það var mín helsta réttlæting fyrir að vera á svona stórum og dýrum bíl ... maður er einn að þvælast um vetur á erfiðum fjallvegum. Í öðru lagi hef ég það fyrir reglu, að vera alltaf vel klæddur í bílnum því þótt það sé miðstöð og hiti í bílnum þá veit maður aldrei hvað gerist og þá er betra að vera ekki í stuttermabol. Ég var í jakka og með úlpuna í sætinu við hliðina á mér sem ég gat farið í," sagði Steingrímur. „Slysin gera aldrei boð á undan sér. Ég er búinn að vera farsæll ökumaður í 35 ár og atvinnubílstjóri í nokkur ár og hef aldrei lent í tjóni eða óhappi sem farið hefur á skýrslur."
Steingrímur vildi koma á framfæri þakklæti til þeirra sem komu að björgun hans: Neyðarlínunnar, Ragnari flutningabílstjóra sem fyrstur kom að honum eftir slysið, lögreglu og sjúkraflutningamönnum, áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar og læknum og sjúkraliði á Landspítala háskólasjúkrahúsi. „Eftir að maður hefur upplifað þetta sjálfur skilur maður betur hversu ómetanlegt það er að eiga þjálfað fólk sem kann til verka við erfiðar aðstæður," sagði Steingrímur.