Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu, að fyrirtækið ACO Tæknival sé skaðabótaskylt vegna slyss sem kona varð fyrir utan við verslun BT í Skeifunni í Reykjavík. Konan féll í hálku framan við verslunina í desember 2003 og hlaut í kjölfarið varanlega 18% örorku að mati sérfræðinga.
Í niðurstöðu dómsins segir, að í dómaframkvæmd á síðari árum hafi verið felld sú skylda á verslunareigendur og aðra þá, sem reka þjónustu sem ótilgreindur hópur fólks sækir, að sinna hæfilegu eftirliti með öryggi á aðkomuleiðum og grípa til aðgerða til að tryggja það. Hafi hér orðið skýr stefnubreyting frá þeirri dómvenju sem fylgt var fram undir lok síðustu aldar. Sé byggt á því í dómaframkvæmd að verslunareigendur o.fl. beri þá skyldu gagnvart viðskiptavinum sínum að grípa til hæfilegra aðgerða til að hindra hálkumyndun við inngang verslana sinna.
Í þessu tilviki höfðu liðið meira en fjórar klukkustundir frá því að eftirlit var haft með aðstæðum við inngang verslunarinnar. Var veður þó umhleypingasamt og því talsverð hætta á að hálka myndaðist. Segir dómurinn, að meta verði þennan skort á eftirliti sem saknæma vanrækslu, en ekki dugi að bíða þess að viðskiptavinir kvarti. Verði slys konunnar rakið til þessarar vanrækslu en ekki hafi verið sýnt fram á að hún hafi farið óvarlega eða verið illa búin.