Samræmd stúdentspróf felld niður í núverandi mynd

Menntamálaráðherra hefur ákveðið að fella niður samræmd stúdentspróf í framhaldsskólum í núverandi mynd. Stefnir ráðherra að því að leggja fram á vorþingi frumvarp þar sem lagt verður til að fella úr gildi ákvæði 24. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla sem á sínum tíma voru samþykkt samhljóða á Alþingi.

Í frétt frá menntamálaráðuneytinu kemur fram, að við framkvæmd samræmdra stúdentsprófa árið 2005 komu í ljós ýmsir annmarkar, s.s. að nemendur sáu lítinn tilgang með prófunum, lítil merki sáust þess að skólar á háskólastigi kölluðu eftir því að nemendur hefðu lokið slíkum prófum svo og að prófin hentuðu misvel einstökum nemendum og ólíkum skólum. Einnig er ljóst að framhaldsskólar áttu í ýmsum erfiðleikum með að bæta samræmdum stúdentsprófum við viðamikið prófahald sem þar hefur tíðkast um árabil, bæði í lok vor- og haustmisseris.

Fyrr á þessu ári skipaði menntamálaráðherra starfshóp um námsmat á framhaldsskólastigi og hefur hann nú skilað niðurstöðu sinni. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar ráðuneytisins, Félags framhaldsskólakennara, forstöðumaður Námsmatsstofnunar, fulltrúi Félags íslenskra framhaldsskóla, fulltrúi Hagsmunaráðs íslenskra framhaldsskólanema og fulltrúi Samstarfsnefndar háskólastigsins.

Hópurinn var sammála um að leggja bæri af núverandi fyrirkomulag samræmdra prófa sem tíðkast hefur síðastliðin tvö ár. Jafnframt leggur hópurinn til að kannaður verði möguleiki á að tekin verði upp einstaklingsmiðuð tölvuvædd könnunarpróf. Slík próf gefi möguleika á að koma til móts við þarfir einstakra nemenda og skóla, ásamt því að geta nýst viðtökuskólum og fræðsluyfirvöldum. Tilgangur könnunarprófanna væri fyrst og fremst að veita nemendum og skólum upplýsingar um stöðu einstakra nemenda í viðkomandi námsgrein þannig að unnt yrði að taka mið af því í áframhaldandi námi nemandans.

„Í ljósi reynslunnar af samræmdum stúdentsprófum í núverandi mynd og áforma um breytta námsskipan til stúdentsprófs telur menntamálaráðherra rétt að breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi samræmdra stúdentsprófa.

Samhliða því sem samræmd stúdentspróf verða felld niður í núverandi mynd verður unnið að framhaldi málsins í tengslum við tíu punkta samkomulag menntamálaráðuneytis og Kennarasambands Íslands um bætt skólakerfi og væntanlega heildarendurskoðun á lögum um framhaldsskóla. Menntamálaráðherra telur það vera mikilvægan lið í því starfi sem framundan er að meta heildstætt hvaða leið sé heppilegust til framtíðar m.a. með hliðsjón af niðurstöðu starfshóps um námsmat á framhaldsskólastigi og áformum um breytta námsskipan," að því er fram kemur í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka