Bandarísk stjórnvöld hafa tilkynnt ríkisstjórn Íslands að dregið verði stórlega úr starfsemi bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli síðar á þessu ári. Ákveðið hefur verið að orrustuþotur varnarliðsins og björgunarþyrlur þess verði fluttar brott í síðasta lagi fyrir lok september. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, segir að þetta séu mikil vonbrigði en þessi ákvörðun Bandaríkjamanna komi þó ekki alfarið á óvart og nú þurfi að vinna úr þessari stöðu.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir, að íslenskum stjórnvöldum hafi verið tilkynnt þessi ákvörðun í símtali sem Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, átti við Geir H. Haarde utanríkisráðherra í dag. Þá gekk sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á fund Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra og Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra og gerði þeim nánari grein fyrir ákvörðuninni.
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði við fréttamenn nú undir kvöld, að í framhaldi af þessu verði viðræður við Bandaríkjamenn um hvað taki við og einnig verði þessi staða rædd við önnur ríki í NATO. „Við þurfum áreiðanlega að fara í margvíslegar ráðstafanir vegna okkar innanlandsmála, bæði vegna atvinnumála á Suðurnesjum og einnig vegna björgunarmála þannig að þetta kemur til með að hafa margvísleg áhrif," sagði Halldór.
Geir H. Haarde sagði að hann teldi sig hafa með ferð sinni til Bandaríkjanna nýlega og því sem íslensk stjórnvöld lögðu þar fram, sýnt í verki að íslenskum stjórnvöldum væri í mun að ná niðurstöðu í þetta mál. Sú niðurstaða væri þó ekki með þeim hætti sem vonast var til þegar Íslendingar hefðu átt von á að þeir myndu brátt halda til næsta samningafundar við bandarísk stjórnvöld. Þetta væri hins vegar ákvörðun Bandaríkjaforseta og alltaf hefði legið ljóst fyrir að hann ætti síðasta orðið um þessar flugvélar.
Geir sagði að hins vegar lægi fyrir að Bandaríkjamenn ætluðu sér að standa við varnarsamninginn frá 1951 þótt það væri með öðrum hætti en undanfarin ár og þeir telji m.a. að orrustuþoturnar hafi ekki jafn veigamiklu hlutverki að gegna og áður.
„Nú þurfum við að búa þannig um hnútana að hér verði áfram sýnilegar lágmarksvarnir þannig að við höfum það sem við teljum nauðsynlegt í þeim efnum þótt þessar þotur hverfi. Það er verið að tala t.d. um að hér geri verið æfingaaðstaða og flugsveitir geti komið hingað til skiptis og verið hér í tiltekinn tíma eða þá að við náum jafnvel samningum við Atlantshafsbandalagið um slíkar sveitir," sagði Geir.
Halldór sagði, að þessi niðurstaða hefði hangið yfir alveg frá því Bandaríkjamenn tilkynntu Íslendingum um það vorið 2003 að vélarnar myndu fara innan mánaðar. Það hefði verið ósk Íslendinga að vélarnar yrðu hér áfram en þeir hafi jafnframt gert sér grein fyrir því að niðurstaðan kynni að verða önnur. „Nú er það orðið og við verðum að vinna úr því og við erum tiltölulega vel undir það búin," sagði Halldór. Hann sagði að Geir hefði óskað eftir því við Burns í dag, að tekið yrði sérstakt tillit til þess að Íslendingar hafa til þessa reitt sig á björgunarþyrlur varnarliðsins og þyrftu því tíma til að gera ráðstafanir.
Í tilkynningu utanríkismálaráðuneytisins segir, að Bandaríkjastjórn lýsi yfir eindregnum ásetningi sínum um að standa við varnarsamning ríkjanna frá 1951 og Norður Atlantshafssáttmálann og leggi til að viðræður milli landanna haldi áfram sem fyrst um framhald varnarsamstarfsins. Íslensk stjórnvöld leggi áherslu á að viðræðum sé hraðað því að brýnt sé að niðurstaða náist um framtíðarskipan í varnarmálum.
„Íslensk stjórnvöld harma þessa ákvörðun bandaríkjastjórnar. Eins og fram hefur komið hafa þau lagt fram ítarlegar tillögur um aukna þátttöku í rekstri Keflavíkurflugvallar í ljósi aukinnar borgaralegrar umferðar um völlinn, sem og þátttöku í rekstri þyrlubjörgunarsveitar varnarliðsins. Utanríkisráðherra hefur óskað eftir að koma á fund utanríkismálanefndar sem fyrst vegna málsins og einnig að flytja Alþingi munnlega skýrslu um það."