Lögreglunni í Vestmannaeyjum var í gær tilkynnt um að skotið hafi verið á kött með loftbyssu og að skotið væri fast í sárinu. Ekki var um djúpt sár að ræða og mun kötturinn að öllum líkindum ná sér. Lögreglan segir hins vegar ljóst að sá eða þeir sem þarna voru að verki þurfa að hugsa sinn gang vandlega.
Um er að ræða brot á vopnalögum þar sem notkun skotvopna er óheimil á Heimaey nema á sérstökum stöðum og með sérstöku leyfi. Lögreglan segir, að ef þarna hafi verið um börn að ræða sé ábyrgð foreldra töluverð í þessu tilviki þar sem notkun loftskotvopna sé háð því að viðkomandi sé orðin 20 ára og með byssuleyfi. Börn eigi aldrei að hafa aðgang að skotvopnum, hvað þá að nota þau.