14 ára stúlka sló saksóknara og fleygði vatnskönnu í dómarana

14 ára bresk stúlka sló saksóknara og fleygði vatnskönnu í átt að dómurum við sérstakan ungmennarétt eftir að henni var greint frá því að hún gæti átt fjögurra mánaða vist á betrunarheimili í vændum. Stúlkan heitir Leanne Black en hún þurfti að mæta fyrir réttinn vegna ölvunaraksturs. Dómurum þótti við hæfi að gefa upp nafn hennar í „þágu almennings“, en slíkt er fátítt við breska dómstóla.

Black keyrði fyrst undir áhrifum áfengis aðeins 12 ára gömul og telur breska ríkisútvarpið BBC að hún hafi yngst allra Breta brotið af sér með þeim hætti. Black tók bíllykla að fjölskyldubílnum í leyfisleysi í febrúar sl. eftir að hafa drukkið þrjár dósir af bjór og náðist hún nærri heimili systur sinnar eftir að foreldrarnir létu lögreglu vita. Þá var hún einnig á skilorði vegna andfélagslegrar hegðunar.

Black hlaut þriggja ára ökubann upp úr krafsinu, þrátt fyrir að vera undir lögaldri til ökuleyfis og dæmd til átta mánaða dvalar á betrunarheimili. Helmingur dvalarinnar yrði þó í afgirtu og lokuðu húsnæði. Við þær fréttir fékk Black bræðikast og hrópaði ókvæðisorðum að dómurum, barði saksóknarann í bakið og fleygði vatnskönnu í dómara. Skömmu áður greindi hún þó frá því að hún iðraðist gjörða sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert