Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt ummæli, sem höfð voru um Bubba Morthens í blaðinu Hér og nú dauð og ómerk. Þá er fyrrverandi ritstjóri blaðsins dæmdur til að greiða Bubba 700 þúsund krónur í bætur auk 500 þúsund króna í málskostnað en Bubbi krafðist 20 milljóna króna í bætur.
Segir dómurinn, að Bubbi hafi orðið að þola ólögmæta meingerð gegn friði sínum og æru og séu miskabætur ákvarðaðar með hliðsjón af atvikum, einkum því að myndirnar og meiðyrðin hafi náð mikilli útbreiðslu.
Málið var höfðað vegna fyrirsagnar á forsíðu blaðsins þar sem stóð: Bubbi fallinn, ásamt mynd af Bubba með sígarettu í munninum. Einnig var samhljóða fyrirsögn á innsíðum í sama blaði og fleiri myndir.
Í dómnum segir, að stefnandi sé þjóðþekktur maður, allflestir Íslendingar þekki listamannsnafn hans og þekki hann á myndum. Þorra þjóðarinnar sé það kunnugt, að hann hafi neytt ólöglegra vímuefna fyrr á árum og að hann sé hættur þeirri neyslu. Ekki sé í þessu sambandi unnt að skilja fyrirsögnina öðru vísi en svo að fullyrt sé, að stefnandi sé byrjaður að neyta vímuefna. Tóbaksnotkun hans hafi aldrei verið mikið til umfjöllunar, þó hann hafi rætt stuttlega um reykingar í viðtölum endrum og sinnum.
Dómurinn segir að ekki sé unnt að fallast á þá fullyrðingu útgefanda og ritstjóra blaðsins, að augljóslega sé vísað til þess að Bubbi sé byrjaður að reykja aftur. Eins og fullyrðingin sé fram sett sé hún röng og feli í sér aðdróttun samkvæmt skilgreiningu almennra hegningarlaga. Þá sé augljóst, að aðdróttunin hafi verið höfð uppi gegn betri vitund og dreift opinberlega. Eru ummælin á forsíðu blaðsins því dæmd dauð og ómerk.
Sömu orð birtust inni í blaðinu og þar eru einnig birtar fleiri myndir. Þá er þar stutt klausa með minna letri þar sem rætt er um það að Bubbi sé byrjaður að reykja aftur, sé fallinn á reykbindindi sínu. Dómurinn segir, að í samhengi við þennan texta feli fyrirsögnin ekki eins og sama fyrirsögn á forsíðu fullyrðingu um vímuefnanotkun, þó vissulega leiki höfundur sér að tvíræðri merkingu orðanna. Því sé þar ekki á ferð aðdróttun í skilningi almennra hegningarlaga. Verði að hafna kröfu um ómerkingu ummælanna í þessum búningi.
Þá segir dómurinn, að telja verði að myndataka af manni, sem sitji í bifreið, sé óheimil á sama hátt og myndataka á heimili hans, þótt við sérstakar aðstæður kunni hún að vera heimil. Umræddar myndir hafi verið teknar af Bubba þar sem hann sat í bíl sínum á götuhorni í Reykjavík. Ökuferðin eða dvöl stefnanda í Reykjavík þá stundina hafi ekki verið sérstaklega fréttnæm og hafði ekki þýðingu í almennri þjóðfélagsumræðu á þeim tíma. Sama verði að segja um þær staðreyndir, að hann hafi verið að tala í farsíma og með sígarettu í munninum. Myndatakan og birting myndanna hafi því verið tilefnislaus. Með myndunum hafi ritstjórn blaðsins fundið tilefni til stuttrar umfjöllunar um bindindi stefnanda. Umfjöllun um það hvort stefnandi reyki sígarettur sé ekki óheimil. Með því sé ekki fjallað um einkamálefni hans svo ólögmætt geti talist. Myndatakan og birting myndanna hafi hins vegar verið óheimil og því hafi verið brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda.
Segir dómurinn að lokum, að Bubbi Morthens hafi orðið að þola ólögmæta meingerð gegn friði sínum og æru og verði að ákveða honum miskabætur í samræmi við það. Höfundur og ljósmyndari séu ekki nafngreindir í blaðinu. Um ábyrgð fari því samkvæmt prentlögum. Byggt hafi verið á því í dómaframkvæmd að ritstjóri beri ábyrgð en ekki útgefandi í tilviki eins og þessu, þegar höfundar sé ekki getið. Því er útgefandi blaðsins, 365 - prentmiðlar, sýknaður af bótakröfum en Garðar Örn Úlfarsson, sem var ritstjóri blaðsins þegar umfjöllunin birtist, dæmdur til að greiða Bubba Morthens 700 þúsund krónur í miskabætur.