Óeirðarlögreglan í París segist hafa náð tökum á ófriðarástandinu þar í borg vegna mótmæla fyrirhugaðrar vinnulöggjafar í landinu. Í það minnsta 245 voru handteknir við torgið Place de la Republique þar sem ófriðurinn var hvað mestur enda lauk mótmælagöngu þar í dag. Lögreglan beitti táragasi og öflugum vatnsbyssum til að dreifa úr mannfjöldanum. Embættismenn taka fram að ófriðarseggirnir hafi fæstir verið að mótmæla lögunum heldur vekja athygli á eigin kjörum.
Lögreglan telur að rúm milljón manna hafi mótmælt í dag vítt og breitt um landið og um 92.000 hafi farið í mótmælagöngu í París. Verkalýðsfélög efndu til allsherjarverkfalls í landinu og röskuðust samgöngur í landinu verulega vegna þess bæði innanlands sem og í alþjóðaflugi.
Innanríkisráðherra Frakklands, Nicolas Sarkozy, hældi lögreglumönnum fyrir vel unnin störf síðla í kvöld er hann lét sjá sig á átakasvæðinu í miðborg Parísar eftir að tekist hafði að róa fólk niður. Fréttavefur Sky greindi frá þessu.