Sumartími verði tekinn upp og frídagar færðir

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ásamt þremur öðrum þingmönnum lagt fram tillögu til þingsályktunar um að kannað verði hvort ástæða sé til að taka upp sumartíma á Íslandi og flytja sumardaginn fyrsta og verkalýðsdaginn að helgum. Þetta yrði gert í því skyni að landsmenn fengju betra tækifæri til að njóta sumarsins og lengra helga.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að verði tekinn upp sumartími á Íslandi myndi hið náttúrulega hádegi flytjast frá klukkan um hálftvö til um hálfþrjú á daginn. Þannig myndi þjóðin vakna fyrr á sumrin og byrja daginn fyrr. Það myndi þýða að sólarinnar nyti lengur við eftir að fólk kæmi heim úr vinnu. Þetta myndi gefa þjóðinni betra tækifæri til þess að njóta sumarsins og skapaði án efa betri sumarstemningu með öllu sem því fylgir, svo sem auknum möguleikum á frekari samverustundum með fjölskyldunni.

Í greinargerðinni segir einnig að heppilegt væri að flytja fimmtudagsfrídaga að helgum og taka þá jafnvel á öðrum tíma. Ætla mætti að flutningur uppstigningardags að helgi yrði viðkvæmari en flutningur sumardagsins fyrsta eða verkalýðsdagsins þar sem uppstigningardagur sé einn af helgidögum þjóðkirkjunnar. Því liggi beinna við að kanna hvort heppilegt sé að flytja sumardaginn fyrsta annaðhvort til föstudags eða mánudags næstu helgi á eftir. Jafnvel gæti verið æskilegt að flytja sumardaginn fyrsta frá þriðja fimmtudegi í apríl til júní- eða júlímánaðar þar sem páskar og hvítasunna geri það að verkum að frídagar sé allþéttir á þessum tíma ársins. Þá mætti einnig kanna hvort rétt væri að flytja verkalýðsdaginn þannig að hann yrði til dæmis fyrsti mánudagur í maímánuði í stað þess að vera bundinn almanaksdegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert