Þorgerður Katrín og Björgólfur tóku fyrstu skóflustunguna saman

Þorgerður sagði í ræðu eftir moksturinn að gott væri að …
Þorgerður sagði í ræðu eftir moksturinn að gott væri að hafa Björgólf á vinstra lærinu en betra hefði verið að hafa hann á því hægra. Morgunblaðið/Kristinn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Háskólasjóðs Eimskipafélagsins, klifruðu upp í 35 tonna skurðgröfu um klukkan hálf tíu í morgun og tóku í sameiningu fyrstu skóflustunguna að Háskólatorgi við Háskóla Íslands. Í ræðu eftir moksturinn sagði Þorgerður, að gott hafi verið að hafa Björgólf sér til halds og trausts á vinstra lærinu en betra hefði verið að hafa hann á því hægra.

Háskólatorgið mun kosta 1600 milljónir en Háskólasjóður Eimskipafélagsins leggur 500 milljónir til framkvæmdanna og Félagsstofnun Stúdenta 320 milljónir. Háskólinn sjálfur mun selja nokkrar húseignir til að fjármagna torgið og Happdrætti Háskólans leggja fram fé og taka lán vegna byggingarinnar.

Ingjaldur Hannibalsson, formaður byggingarnefndar Háskólatorgs, segir að bygging torgsins verði boðin út á föstu verði sem þýði að verktakinn verði að skila byggingunni fyrir 1600 milljónir og eigi það að koma í veg fyrir að framkvæmdir fari fram úr áætlun.

Háskólatorg Háskóla Íslands er samheiti tveggja bygginga á háskólasvæðinu sem verða samtals um 8.500 fermetrar að stærð með tengibyggingum. Þar munu starfa á þriðja hundrað starfsmenn og um 1.500 nemendur. Háskólatorg 1 rís á lóð milli aðalbyggingar og íþróttahúss og tengist Lögbergi. Ætlunin er að leggja undirgöng undir Suðurgötu til að tengja bygginguna við háskólasvæðið vestan Suðurgötu. Háskólatorg 2 rís þar sem nú er bílastæði á milli Lögbergs og Odda og mun tengjast báðum byggingunum. Í fréttatilkynningu segir að Háskólatorg leysa úr brýnni þörf Háskólans fyrir aukið húsnæði undir kennslu og rannsóknir. Þar verði stærri og minni fyrirlestrasalir, kennslustofur, rannsóknastofur, lesrými og skrifstofur kennara og sérfræðinga, tölvuver og ýmis fjölnota rými sem þjóna eigi öllum deildum Háskólans.

Gert er ráð fyrir nokkru ónæði af framkvæmdunum og verður af þeim sökum ekki prófað í þeim byggingum sem liggja næst framkvæmasvæðinu. Þess í staðinn verður prófað í KR-heimilinu og lesrýmum fjölgað í þeim byggingum sem liggja fjær.

Tölvuteikning af fyrirhuguðu Háskólatorgi.
Tölvuteikning af fyrirhuguðu Háskólatorgi. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka