Dæmdur í 6 ára fangelsi fyrir sveðjuárás

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness.

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 18 ára gamlan karlmann, Tind Jónsson, í 6 ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps með því að ráðast að manni, vopnaður stórum hnífi eða sveðju og höggva ítrekað í höfuð hans og líkama. Sá sem fyrir árásinni varð fékk fékk sprungur í höfuðkúpu og blæðingu á yfirborði heilans og mikinn skurð á hægri hendi auk fleiri áverka.

Tindur var einnig sakfelldur fyrir fjórar aðrar líkamsárásir. Í fyrsta lagi fyrir að slá mann ítrekað með vopni sem á voru einn eða fleiri gaddar. Í öðru lagi fyrir að hafa við fimmta mann ráðist að öðrum manni og slegið hann í höfuðið svo að hann féll í jörðina og fyrir að hafa sparkað í höfuð hans og líkama. Í þriðja lagi var hann sakfelldur fyrir samskonar árás á enn annan mann og fyrir að sparka í hann. fyrir samskonar brot gegn Kjartani Inga Árnasyni, að hafa sparkað í hann þar sem hann lá í götunni. Loks var hann fundinn sekur um hættulega árás gegn manni, sem reyndi að verja manninn, sem Tindur réðist á með eggvopninu. Þá var hann að auki fundinn sekur fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og vopnalögum. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í október á síðasta ári.

Tindur var einnig dæmdur til að greiða þremur mönnum miskabætur, samtals um 1,1 milljón króna og til að greiða samtals um 2,3 milljónir króna í málskostnað.

Fimm aðrir piltar voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir aðild að fyrrgreindum árásum sem áttu sér stað á síðasta ári. Einn fékk sex mánaða skilorðsbundið fangelsi en hann var m.a. fundinn sekur um sérstaklega hættulega árás með því að slá konu í andlitið með glerflösku með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á vinstra kinnbeini. Þrír piltar hlutu fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm og einn þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert