Leita að pýramída innan í fjalli í Bosníu

Semir Osmanagic með fjallið eða pýramídan í baksýn.
Semir Osmanagic með fjallið eða pýramídan í baksýn. AP

Fornleifafræðingar hófu í dag uppgröft í fjalli fyrir ofan bæinn Visoko í Bosníu, en samkvæmt gamalli þjóðsögu er fjallið í raun ævaforn pýramídi. Stjórnandi uppgraftarins er bosnískur fornleifafræðingur, Semir Osmanagic, sem segir fjallið líkjast pýramídum í Suður-Ameríku, sem hann hefur rannsakað.

Fjallið er um 650 metra hátt og nefnist Visocica. Reynist fótur fyrir þjóðsögunni verður þetta í fyrsta sinn sem pýramídi finnst í Evrópu. Frumrannsóknir á fjallinu hafa leitt í ljós að hlíðar þess halla nákvæmlega 45 gráður og liggja upp að flötum toppi.

Undir þykkum moldarlögum hafa fundist steinlagðar stéttar, gangnamunnar og stórir steinar sem gætu verið hluti af ytra byrði pýramída. Á gervitunglamyndum hafa sést tvær aðrar pýramídalagaðar hæðir í Visoko-dalnum.

Uppgreftrinum verður til að byrja með haldið áfram í um hálft ár, en Osmanagic segir að frumniðurstöður ættu að liggja fyrir eftir þrjár vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert