JJ Abrams, sem er maðurinn á bak við þættina Lost og leikstjóri Mission Impossible III, mun framleiða og leikstýra elleftu Star Trek kvikmyndinni, að því er frásagnir herma. Samkvæmt blaðinu Daily Variety mun kvikmyndin fjalla um upphafsár kafteinsins James T. Kirk og Spock félaga hans. Áætlað er að kvikmyndin verði tilbúin árið 2008.
Ekki er búið að ákveða nafn á kvikmyndina en í henni verður greint frá því hvernig þeir Spock og Kirk kynnast og fyrstu geimferðum þeirra.
Síðasta Stark Trek myndin kom út árið 2003, en hún bar heitið Star Trek: Nemesis. Abrams mun skrifa handritið ásamt þeim Alex Kurtzman og Roberto Orci, sem skrifuðu handritið að Mission Impossible.
Þá munu framleiðendur Lost þáttanna, þeir Damon Lindelof og Bryan Burk, framleiða kvikmyndina með Abrams.