Sjálfstæðisflokkur vill lækka gjaldskrá leikskóla í Reykjavík um 25%

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vilja að gjaldskrá í leikskólum borgarinnar lækki um 25% hinn 1. september nk. Þetta er meðal þess sem fram kemur í fjölskyldustefnu flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Frambjóðendur kynntu stefnuna á blaðamannafundi fyrir hádegi í dag. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sagði að stefnunni mætti lýsa með fjórum setningum; betri þjónustu, léttari byrðum, minna skutli og fleiri gæðastundum.

Í viðhorfskönnun sem IMG Gallup gerði fyrir Sjálfstæðisflokkinn kemur fram að 94,3% aðspurðra Reykvíkinga telja mikilvægt að fá fleiri tækifæri til samverustunda með fjölskyldu sinni. Vilhjálmur sagði að sjálfstæðismenn væru með fjölskyldustefnu sinni að stuðla að því að svo geti orðið. Hann sagði að Reykjavíkurborg hefði ekki heildstæða fjölskyldustefnu en sjálfstæðismenn leggðu hins vegar mikla áherslu á þau mál, þ.e. fjölskyldumál.

Í stefnunni sem sjálfstæðismenn lögðu fram á fundinum segir m.a. að þeir vilji tryggja val um örugga vistun fyrir börnin frá því fæðingarorlofi lýkur. Það vilja þeir m.a. gera með því að auka stuðning við dagforeldra, með almennri gjaldskrárlækkun í öllum borgarreknum leikskólum um 25%, með því að foreldrar greiði aldrei fyrir fleiri en eitt barna sinna sem dvelja á leikskóla samtímis og með sérstökum smábarnadeildum í hverju hverfi. Þá vilja þeir að eldri börnin geti valið um nám í leikskólum borgarinnar, s.s. í listsköpum eða í tungumálum, lestri og stærðfræði.

Sjálfstæðismenn vilja einnig samræma skólanám barna og íþrótta - og tómstundastarf. Þeir vilja að öll börn, tíu ára og yngri, njóti sama stuðnings til þess að sækja frístundaheimili að loknum skóla, hvort sem þau eru rekin af skólanum, íþrótta - og tómstundaráði eða öðrum aðilum. "Gengið verði til samninga við íþrótta- og æskulýðsfélög í borginni um að þátttökugjöld barna verði lækkuð, með stuðningi borgarinnar, ekki síðar en um áramótin 2006 og 2007," segir ennfremur í stefnu sjálfstæðismanna.

Þá segja sjálfstæðismenn m.a. í stefnuskránni að þeir vilji að gæsluvellir verið opnaðir á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert