Fundi starfsmanna DV lauk nú fyrir stuttu, en fundurinn hófst klukkan þrjú. Ari Edwald, forstjóri 365, sagði við blaðamenn að búið væri að ákveða að DV komi ekki lengur út sem dagblað, heldur aðeins helgarblað þess. Breytingin mun taka gildi nú um mánaðarmótin. Ákveðið er að Páll Baldvin Baldvinsson verði ritstjóri.
Ari sagði að ástæðan fyrir breytingunni væri tap á rekstri blaðsins á fyrsta ársfjórðungi 2006.
Páll Baldvin segir að um tugur manns muni missa vinnuna vegna breytinganna á rekstri blaðsins en alls starfa á milli 20-30 manns hjá DV. Björgvin Guðmundsson, sem starfaði við hlið Páls sem ritstjóri, mun snúa til annarra starfa innan fyrirtækisins.