Um milljón manns kom saman víðs vegar um Evrópu í tilefni baráttudags verkalýðsins. Verkalýðsfélög í Þýskalandi skutu föstum skotum að græðgi fyrirtækja í Frakklandi marséruðu þjóðernissinnar frá styttu af Jóhönnu frá Örk og kommúnistar í Rússlandi heiðruðu Marx og Lenín. Í Istanbúl í Tyrklandi mótmæltu menn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þurfti að beita táragasi á mótmælendur í Bandaríkjunum. Í Stokkhólmi voru um 130 manns handteknir vegna óláta í tengslum við kröfugöngur í borginni.
Leiðtogar sænska Jafnaðarmannaflokksins gagnrýndu stjórnarandstöðuna harðlega í ræðum í dag en kosið er til sænska þingsins í haust og benda skoðanakannanir til þess að mið- og hægriflokkarnir fari með sigur af hólmi. Göran Persson, forsætisráðherra, sagði í ræðu sem hann flutti í tilefni af 1. maí í úthverfi Stokkhólms í dag, að tilgangurinn með stefnu hægriflokkanna væri að koma höggi á vinnumarkaðskerfi Svía.
Í Tyrklandi tókust mótmælendur á við lögreglu og voru 40 handteknir, í Þýskalandi var alþjóðavæðingunni mótmælt, þess krafist af ríkisvaldinu að það setti lög um lágmarkslaun og fyrirtæki sökuð um að fórna starfsmönnum fyrir peninga. Þjóðernissinnar voru um 3.000 í París í Frakklandi og hlýddu á leiðtoga Þjóðernisflokksins, Jean-Marie Le Pen, sem óskaði eftir stuðningi til forsetaframboðs.
Þá komu 25.000 manns saman í Moskvu en í heildina fór 1,5 milljón manna í kröfugöngu í Rússlandi. Í Hvíta-Rússlandi voru um 2.000 saman komin í höfuðborginni Minsk og ögruðu stjórnvöldum sem nýverið fangelsuðu forsetaframbjóðandann og stjórnarandstæðinginn Alexander Milinkevich. Í Bosníu marséruðu menn í Sarajevo og kröfðust kosninga og afsagnar ríkisstjórnarinnar sem er sökuð um aðgerðaleysi í atvinnuleysinu sem þar geisar. Um 50 kröfugöngur voru farnar víðs vegar um Spán og á Ítalíu var menntamálaráðherra landsins meinað að taka þátt í kröfugöngu, en ekki fylgir frétt AP hvers vegna það var.
Lögreglan beitti táragasi og skaut gúmmíkúlum að hundruðum mótmælenda í Zurich í Sviss í dag, viðskiptahöfuðborg landsins. 200-300 mótmælendum var haldið frá miðbænum en tókst þeim þó að skemma töluvert byggingar, þ.á.m. bankaútibú og fataverslun, að því er svissneska lögreglan segir í yfirlýsingu. Ekki er ljóst að svo stöddu hversu margir voru handteknir, hversu margir særðust í átökunum eða hversu mikið eignatjónið varð. Að öðru leyti fóru kröfugöngur friðsamlega fram í borginni og talið að 4.000 manns hafi verið þar stödd.