Kastró sagður sjöundi ríkasti þjóðarleiðtogi heims

Fídel Kastró, leiðtogi Kúbu, er sagður einn ríkasti þjóðarleiðtogi heims.
Fídel Kastró, leiðtogi Kúbu, er sagður einn ríkasti þjóðarleiðtogi heims. Reuters

Fídel Kastró Kúbuleiðtogi er í sjöunda sæti á lista tímaritsins Forbes yfir auðugustu þjóðarleiðtoga heims með þeim Elísabetu II Englandsdrottningu og Abdullah konungi Sádí-Arabíu meðal annarra. Samantekt Forbes nær yfir kóngafólk, forseta og aðra þjóðarleiðtoga. Abdullah er þeirra ríkastur en hann er nú orðinn 82 ára gamall.

Ríkidæmi Abdullah er talið nema 21 milljarði dollara, 1.512 milljörðum króna. Í öðru sæti, þ.e. næstríkasti þjóðarleiðtoginn, er soldáninn af Brunei, Hassanal Bolkiah og í því þriðja forseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Khalifa bin Zayed al-Nahayan og er hann sagður eiga 19 milljarða dollara.

Leiðtogi Dubai, Mohammed bin Rashid al-Maktoum, er í fjórða sæti og ríkisdæmi hans metið á 14 milljarða dollara en Hans-Adam II, prinsinn af Lichtenstein er næstur honum með litla 14 milljarða dollara. Kastró Kúbuleiðtogi er í 7. sæti, talinn eiga 900 milljónir dollara þar sem hann hefur hagnast af ýmiss konar starfsemi en sjálfur segist Kastró ekki eiga grænan eyri. Elísabet II Englandsdrottning er í níunda sæti, sögð eiga 500 milljónir dollara.

Talsmenn Forbes segja þó oft erfitt að sjá í slíku mati hvað sé þjóðareign og hvað eign þjóðarleiðtoga og þá sérstaklega þar sem einræðisherra fari með völd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert