George W. Bush, forseti Bandaríkjanna hefur komið illa út úr skoðanakönnunum undanfarið og í dag kvartaði hann undan því að slæmar fregnir frá Írak skyggi á það sem hann kallaði góðar fregnir af bandaríska efnahagnum.
Í viðtali við CNBC sjónvarpsstöðina sem skýrir aðallega frá viðskiptafréttum sagði Bush að hann hefði eytt miklum tíma í efnahaginn í ræðu og riti á almennum vettvangi undanfarið en það breytti engu.
„Vandinn er að við eigum í styrjöld og stundum er erfitt fyrir fólk að ná jákvæðum skilaboðum um efnahaginn þegar það sér óhugnanlegar myndir af ofbeldinu í sjónvarpinu,” sagði forsetinn.
Bush sagði að 138 þúsund ný störf hefðu myndast í Bandaríkjunum í apríl og sýni það að efnahagurinn er sterkur. En sá styrkur hefur ekki skilað sér í pólitísku fylgi. Nýleg Gallup könnun sýnir að þegar einungis hálft ár er í kosningar þá hefur fylgi Bush hrapað niður í 34%.