Fljúgandi furðuhlutir sagðir eiga sér eðlilegar skýringar

Fljúgandi furðuhlutir yfir Mexíkó fyrir nokkrum árum.
Fljúgandi furðuhlutir yfir Mexíkó fyrir nokkrum árum. Reuters

Í leynilegri skýrslu, sem gerð var fyrir breska varnarmálaráðuneytið, er komist að þeirri niðurstöðu að engar sannanir séu fyrir því að lífverur frá öðrum hnöttum hafi komið til jarðarinnar og eðlilegar skýringar séu á þeim fljúgandi furðuhlutum, sem stundum sjást á flugi.

BBC segir, að skýrslan hafi verið gerð árið 2000 og merkt sem trúnaðarmál en hafi nú verið birt opinberlega eftir að breskur vísindamaður fékk hana í hendur með tilvísun til upplýsingalaga. Aðeins fá eintök voru prentuð af skýrslunni og ekki kemur fram hver skrifaði hana.

Skýrslan var gerð eftir fjögurra ára rannsókn og niðurstaðan er, að engar vísbendingar séu um að óþekktir hlutir séu óvinveittir eða lúti stjórn annars en eðlisfræðilögmála.

Í skýrslunni segir að í mörgum tilfellum sé um að ræða loftsteina eða veðurfyrirbrigði eða ljós sem stafi af raf- eða segulmagni. Ýmsar aðrar skýringar hafa einnig verið nefndar, svo sem flugvélaljós, veðurloftbelgir eða fuglar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert