Súkkulaði banabiti grunaðs hryðjuverkamanns

Súkkulaðimolar. Molarnir á myndinni eru þó ekki eitraðir.
Súkkulaðimolar. Molarnir á myndinni eru þó ekki eitraðir. Arnaldur Halldórsson

Ísraelska leyniþjónustan Mossad drap grunaðan hryðjuverkamann með eitruðu, belgísku súkkulaði. Hryðjuverkamaðurinn meinti, Wadia Haddad, er talinn hafa rænt flugvél Air France í Úganda 1976 og var leiðtogi Alþýðufylkingar um frelsun Palestínu, en ísraelskir leyniþjónustumenn eltu hann til Bagdad ári síðar, 1977. Haddad var um 140 kg. þungur og vissu leyniþjónustumennirnir að hann væri sælkeri mikill og fengu palestínskan njósnara til að færa honum súkkulaðið eitraða.

Í bókinni Striking Back er fjallað um málið og segir höfundur hennar, Aaron Klein, að súkkulaðið hafi gert sitt gagn og Haddad látið lífið árið 1978. Ráðabruggið hafi verið svo vel úr garði gert að Haddad hafi sýnt einkenni hvítblæðis og engan grunað að hann hafi verið myrtur. Sky fréttavefurinn greindi frá því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert