Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,45% milli apríl og maí, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar og um 1,48% án húsnæðis. Þetta er talsvert meiri hækkun en greiningardeildir bankanna höfðu gert ráð fyrir en þær spáðu hækkun á bilinu 1,1-1,5%.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 7,6% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 5,4%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,8% sem jafngildir 15,9% verðbólgu á ári.
Verð á liðnum ferðir og flutningar hækkaði um 5,2% (vísitöluáhrif 0,89%). Þar af hækkaði verð á bensíni og díselolíu um 6,5% (0,44%) og verð á nýjum bílum hækkaði um 5,3% (0,32%). Verð á tækjum og öðrum vörum til tómstundaiðkunar hækkaði um 3,2% (0,16%).
Verð á eigin húsnæði í vísitölu neysluverðs hækkaði um 1,8% (0,31%), þar af voru áhrif af hækkun vaxta 0,06% en 0,25% af hækkun markaðsverðs. Verð á mjólk og mjólkurvörum lækkaði um 5,5% (-0,13%).