Ættingjum þeirra, sem létu lífið í fjöldamorðunum í Columbine miðskólanum í Bandaríkjunum, er misboðið og þeir ævareiðir yfir tölvuleik sem gerður hefur verið um atburðina. Leikurinn heitir Super Columbine Massacre RPG og er nú orðinn afar vinsæll á netinu. 12 nemendur og kennari voru skotnir til bana af táningspiltunum Dylan Klebold og Eric Harris árið 1999, en þeir sviptu sig lífi að ódæðisverkunum loknum.
Í leiknum sjást þeir Klebold og Harris með skotvopn í höndum og einnig er þar að finna ljósmyndir sem teknar voru á vettvangi. Nemendur hlaupa um grátandi og viti sínu fjær af hræðslu, en þó eru andlit fórnarlamba ekki notuð af hönnuðum leiksins.
Brian Rohrbough, faðir drengs sem myrtur var í skólanum, segir leikinn viðbjóðslegan og fjöldamorðin gerð að hversdagslegum atburði. Hönnuður leiksins sagði vefdagblaðinu Rocky Mountain News að hann vildi hvetja til „raunverulegra umræðna um skólamorð“ með gerð leiksins. Sky fréttavefurinn greindi frá þessu.