Hæstiréttur hefur dæmt Lárus Má Hermannsson í 2½ árs fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa ráðist á fyrrverandi sambúðarkonu sína á heimili hennar og slegið hana margsinnis í höfuðið með felgulykli. Hlaut hún við það sár á höfði. Maðurinn var ákærður fyrir manndrápstilraun en Hæstiréttur taldi ekki sannað að hann hafi ætlað að verða konunni að bana með árás sinni. Héraðsdómur Vesturlands hafði áður sakfellt manninn fyrir manndrápstilraun og dæmt hann í 5½ árs fangelsi.
Hæstiréttur vísar til þess, að felgulykillinn væri hvorki eggvopn né af teljandi þyngd og ekki lægju fyrir sérfræðileg gögn um hættuna, sem árás með hann að vopni gæti leitt af sér. Þá voru ekki taldar liggja fyrir nægar upplýsingar um aðstæður á vettvangi svo unnt væri að varpa ljósi á hvort maðurinn hefði gengið svo harkalega fram sem aðstæðurnar gáfu færi á. Ennfremur væri ósannað að hann hefði áður hótað að vinna konunni mein og þá yrðu ekki dregnar haldbærar ályktanir um ásetning hans af háttalagi hans nóttina fyrir árásina eða í framhaldi af henni.
Með hliðsjón af þessu þótti varhugavert að telja sannað að maðurinn hefði ætlað að verða konunni að bana með árás sinni eða að honum hefði átt að vera ljóst að sú gæti orðið afleiðing hennar. Varð brot hans því ekki heimfært til 211. greinar almennra hegningarlaga, heldur fellt undir 2. málsgrein 218. greinar laganna í ljósi aðferðarinnar við árásina. Þótti refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í 2½ ár auk þess sem maðurinn var dæmdur til að greiða konunni 700.000 krónur í miskabætur.