Hvatt var til þess á Alþingi í dag, að forseti þingsins bregðist hratt við upplýsingum um að símar alþingismanna kunni að hafa verið hleraðir meðan á kalda stríðinu stóð og þingflokkar á Alþingi og stofnanir þingsins komi að því starfi. Bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra vísuðu hins vegar til þingsályktunartillögu, sem liggur fyrir Alþingi um að sérstök nefnd fari yfir gögn um málin og töldu eðlilegt að beðið væri með frekari ákvarðanir um aðgerðir þar til skýrsla nefndarinnar liggur fyrir í árslok.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók málið upp í byrjun þingfundar og sagði að þingsályktunartillaga forsætisráðherra væri góðra gjalda verð svo langt sem hún næði, en þar stæði eftir hvernig taka skuli á þeim alvarlegu upplýsingum, sem komu fram í erindi Guðna Th. Jóhannessonar, að símar alþingismanna kunni að hafa verið hleraðir á sínum tíma. Vísaði Ingibjörg Sólrún til þess að Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, hefði sagt í fjölmiðlum að Alþingi hafi ýmis úrræði til að rannsaka þessi mál. Ingibjörg Sólrún sagði, að eðlilegt væri að forseti þingsins beitti sér fyrir því að fulltrúar þingflokkanna hittust og kæmust að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig tekið verður á málum innan Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon skoraði einnig á forseta Alþingis að taka þetta mál föstum tökum og það verði sett í sambærilegan farveg og gert var á hinum Norðurlöndunum þegar svipuð mál komu þar upp. Sagði Steingrímur að norska Stórþingið hefði til dæmis stýrt rannsókn á því þegar upp komst að stundaðar hefðu verið stórfelldar símhleranir og pólitískar njósnir um þingmenn. Sagði Steingrímur að tillaga forsætisráðherra væri allt of takmörkuð og taki aðeins á aðgangi að gögnum en ekki á þeim stórfelldu pólitísku njósnum, sem virðist hafa verið stundaðar um árabil hér á landi, þar á meðal um þingmenn. Málið snúi einnig að því hvernig tryggt verði, að slíkir hlutir gerist ekki aftur. Sagði Steingrímur að þjóðþingin hafi yfirleitt sett á fót einskonar vöktunarnefnd sem vakir yfir því að heimildum til símhlerana sé ekki misbeitt í pólitískum tilgangi.
Guðjón A. Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagðist telja einboðið að Alþingi komi beint að málinu og eðlilegt sé að þinglfokkarnir komi að skoðun málsins frá upphafi. Ekki mætti hengja menn í fortíðinni en fyrir framtíðina væri algerlega nauðsynlegt að þingflokkar komi að málinu.
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, benti á að þingsályktunartillaga hans gerði ráð fyrir að þessi mál verði rannsökuð af utanaðkomandi aðilum sem skili skýrslu fyrir árslok. Hvatti Halldór til þess að þingmenn gæfu sér tíma þar til þær upplýsingar berist og í framhaldi af því geti Alþingi tekið ákvarðanir. Sagðist Halldór á engan hátt vilja verja símhleranirnar en hann teldi nausynlegt að menn vissu hið sanna.
Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, sagði eðlilegt að rannsaka þessi mál öll með hlutlægum og fræðilegum hætti; fyrir því væru ýmis fordæmi frá nágrannalöndum að saga kalda stríðsins sé rannsökuð ýtarlega. Sagði Geir að byrja verði á því, sem þingsályktunartillagan geri ráð fyrir, og fara verði varlega í að hrapa að niðurstöðu fyrirfram um að þinghelgi hafi verið rofin. Sagðist Geir telja eðlilegast, að þingið reyndi að sameinast um þessa þingsályktunartillögu en ef í ljós kæmi, að hún sé ekki nægileg þegar skýrsla nefndarinnar liggur fyrir, þá geti menn tekið frekari ákvarðanir.
Steingrímur sagði dapurlegt að ríkisstjórnin skyldi ekki byrja á því að hafa þverpólitískt samráð um málið frekar en undirbúa einhliða tillögu um að fræðimenn fari yfir það. Samkvæmt þingsályktunartillögunni eigi fræðimennirnir að rannsaka málið í samráði við ráðuneytin, sem áttu hlut að máli. Þannig sé framkvæmdavaldið að reyna að fá blessun Alþingis á að það fari alfarið með málið og fara þannig fram hjá Alþingi.