Hjón á Flórída reyndu að láta myrða tengdadóttur sína og barnabörn

Eldri hjón á Flórída reyndu að verða sér út um leigumorðingja sem átti að myrða þrjú barnabarna þeirra og tengdadóttur, en morðin áttu að koma í veg fyrir það að þau gætu borið vitni gegn syni þeirra sem sakaður hefur verið um nauðgun.

Hjónin, sem eru 60 og 59 ára gömul, voru ákærð í fjórum liðum sem allir varða glæpsamlegt samsæri sem myndi leiða til morðs. Þau sitja nú í gæsluvarðhaldi og fá ekki að ganga laus gegn tryggingargreiðslu.

Að sögn lögreglu buðu hjónin í upphafi lögreglumanni í dulargervi 100 dali (rúmar 7.000 kr.) til þess að myrða tengdadóttur sína, 10 ára dóttur hennar og tvö stjúpbarnabörn þeirra, sem eru 14 og 16 ára. Auk þess vildu þau koma fjölskylduhundinum fyrir kattarnef. Hjónin hétu því að greiða morðingjanum meiri peninga þegar búið væri að myrða fjölskylduna.

Sonur hjónanna hefur setið á bak við lás og slá frá því nóvember, en hann var ákærður í 22. liðum m.a. fyrir að hafa beitt barn kynferðislegu ofbeldi, ýmiskonar misþyrmingar og fyrir að hafa sýnt barni undir lögaldri klámfengið efni.

Rannsóknarlögreglumenn segja að dóttir hans og stjúpdóttir séu fórnarlömbin.

Maðurinn reyndi að fara fram á það að samfangi hans myndi myrða fjölskyldu hans. Uppljóstrari sagði lögreglu frá fyrirætlunum mannsins og lögregla skipulagði fund með foreldrum mannsins á vegahóteli í Tavares sem er í um 50 km fjarlægð frá Orlando.

Að sögn lögregluyfirvalda játuðu hjónin því þegar lögreglumaðurinn, sem var í dulargervi, spurði þau hvort hann ætti að drepa alla og hundinn að auki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert