Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, lýsti því yfir í kvöld eftir fund landsstjórnar og þingflokks Framsóknarflokksins á Þingvöllum í kvöld, að hann hefði ákveðið að draga sig í hlé og hætta í stjórnmálum.
Halldór sagðist hafa rætt um það við Geir H. Haarde, utanríkisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verði mynduð undir forustu Geirs. Sagðist Halldór ætla að leiða viðræður um það fyrir hönd Framsóknarflokksins.
Halldór sagði það hafa legið fyrir að hann hefði ekki verið sáttur við stöðu flokksins að loknum sveitarstjórnarkosningum og að hann myndi axla ábyrgð. Það væri hann að gera með ákvörðun sinni og á sama tíma að skapa rúm fyrir nýtt fólk. Halldór sagði að á miðstjórnarfundi á föstudag myndi hann leggja til að flokksþing verði kallað saman í haust. Sagðist Halldór verða áfram formaður flokksins fram að flokksþinginu en þar myndi hann ekki gefa kost á sér áfram sem formaður. Hann sagðist ætla að nota tímann fram að flokksþinginu til að hvetja sitt fólk til dáða fyrir þingkosningar, sem haldnar verða næsta vor. Þá sagðist Halldór ekki ætla að láta af þingmennsku strax.
Halldór sagði, að þeir Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, hefðu báðir lýst því yfir að þeir væru tilbúnir að hætta í forustu flokksins. Hann staðfesti, að rætt hefði verið við Finn Ingólfsson, stjórnarformann VÍS, um að koma að nýju inn í stjórnmál og forustu flokksins. Halldór sagðist hafa mikla trú á Finni Ingólfssyni og teldi það mikinn feng fyrir Framsóknarflokkinn að fá hann til starfa á ný en það væri hins vegar flokksþings að taka ákvörðun um hverjir veljist í forustu flokksins.
Guðni vildi ekki ræða málið við blaðamenn í kvöld.