Tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvítugan karlmann í 2 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn stúlku en brotið átti sér stað á tjaldstæði í Hornafjarðarbæ í júlí á síðasta ári. Þá var maðurinn dæmdur til að greiða konunni 1 milljón króna í bætur og til að greiða málskostnað, tæpar 800 þúsund krónur.

Maðurinn var fundinn sekur um að hafa þröngvað stúlkunni til kynferðismaka með því að neyða hana til að hafa við sig munnmök. Þá verður hann einnig sakfelldur fyrir að hafa gert tilraun til að þröngva henni til samræðis.

Fram kemur í dómnum, að brot mannsins hafi beinst gegn persónu- og kynfrelsi ungrar stúlku og brotið hafi haft verulegar andlegar afleiðingar fyrir hana og hún verði lengi að ná sér.

Fram kom í skýrslu sálfræðings, að stúlkunni hafi liðið mjög illa í kjölfarið og sýnt öll einkenni þess að hafa orðið fyrir áfalli sem valdið hafi henni skelfingu og varnarleysi. Hún hafi verið mjög kvíðin og hrædd, óörugg í aðstæðum þar sem hún hafi áður fundið sig örugga, verið viðkvæm, grátgjörn og viljað forðast að hitta fólk. Hún hafi átt erfitt með svefn og hafi myndir af atburðinum stöðugt komið upp í huga hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka