Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks staðfesti í morgun, að jórdanski hryðjuverkaleiðtoginn Abu Musab al-Zarqawi hafi látið lífið í loftárás Bandaríkjamanna norður af Bagdad ásamt sjö félögum sínum. Bandaríska sjónvarpsstöðin ABC hafði áður sagt að al-Zarqawi hefði látið lífið.
Al-Zarqawi er talinn hafa verið leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda í Írak og hafa staðið fyrir fjölmörgum hryðjuverkaárásum á bandaríska hermenn og Íraka á undanförnum misserum. Þá hafa hann og menn hans rænt og tekið af lífi vestræna gísla og er al-Zarqawi sjálfur talinn hafa hálshöggvið að minnsta kosti tvo gísla. Bandaríkjamenn lögðu 25 milljónir dala til höfuðs al-Zarqawis, sömu upphæð og lögð hefur verið til höfuðs Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda.
Þá er al-Zarqawi talinn hafa staðið fyrir sprengjuárásum á hótel í Amman í Jórdaníu í nóvember á síðasta ári þar sem 60 manns létu lífið og einnig öðrum árásum í Jórdaníu og jafnvel fyrir flugskeytaárás frá Líbanon á Ísrael.