Al-Zarqawi féll í sameiginlegri árás Bandaríkjamanna og Jórdana

Abu Musab al-Zarqawi.
Abu Musab al-Zarqawi. Reuters

Háttsettur jórdanskur embættismaður sagði í morgun, að Abu Musab al-Zarqawi, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda í Írak, hafi fallið í sameiginlegum aðgerðum Bandaríkjamanna og Jórdana norður af borginni Baquba í Írak í gær. Sagði embættismaðurinn að leyniþjónustur landanna og bandarískir sérsveitarmenn hefðu tekið þátt í aðgerðunum, sem hefðu farið fram á jörðu niðri með aðstoð orrustuflugvéla.

Að sögn embættismannsins var al-Zarqawi að stýra fundi í hryðjuverkasamtökum sínum þegar aðgerðin hófst klukkan 14:15 að íslenskum tíma í gær. Hann hefði látið lífið ásamt 8-10 félögum sínum. Leyniþjónustumenn hefðu borið kennsl á líkið, en nýlegar myndir af al-Zarqawi hefði verið notaðar við það verk.

Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, tilkynnti á blaðamannafundi í Bagdad í morgun, að al-Zarqawi væri allur. Sagði hann að þetta væri árangur af samvinnu, en lögreglan í Írak og alþjóðaherinn hefðu staðið fyrir aðgerðunum.

„Þetta er vísbending til þeirra, sem kjósa leið ofbeldisins, um að þeir ættu að breyta háttum sínum vilji þeir halda lífi. Ég þakka hersveitum okkar, lögreglu og alþjóðahernum fyrir það starf sem unnið er við að bæla hryðjuverkamennina niður," sagði hann.

George Casey, yfirmaður Bandaríkjahers í Írak og Nuri al-Maliki, forsætisráðherra, …
George Casey, yfirmaður Bandaríkjahers í Írak og Nuri al-Maliki, forsætisráðherra, á blaðamannafundi í Bagdad í morgun. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert