George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur útnefnt margar af Hawaii-eyjunum sem þjóðarminnisvarða, en með þessu hefur hann gert eyjarnar að stærsta sjávarverndarsvæði í heimi. Í dag undirritaði hann lög sem munu gera það að verkum að eyjarnar á Norðvestur-Hawaii munu njóta mestu mögulegrar verndar samkvæmt bandarískum lögum.
Umrætt svæði er næstum því jafnstórt og Kalifornía. Þar er að finna yfir 7.000 dýrategundir, en fjórðungur þeirra er hvergi annarsstaðar að finna á jörðinni.
Umhverfissamtök hafa fagnað þessari ákvörðun, en á sama tíma hafa fyrirtæki í sjávarútvegi lýst yfir áhyggjum vegna þessa.
Svæðið, sem er um 362.000 ferkílómetrar að stærð, nær yfir rif, hringeyjar, og grunnsævi. Það er aðeins stærra en Miklitálmi í Ástralíu, sem var fyrir þetta stærsta sjávarverndarsvæði heims.
Hinar afskekktu og óbyggðu eyjar og nærliggjandi sjór skipta sjávarskjaldbökur miklu máli, en þangað koma þær til þess að fjölga sér. Þá eru eyjarnar heimili síðustu munkaselanna frá Hawaii sem eru í útrýmingarhættu.
Nýju lögin gera það að verkum að innan fimm ára verður öll veiði bönnuð á svæðinu og þá þurfa gestir að útvega sér sérstök leyfi ætli þeir sér að kafa á svæðinu.