Sænskir fjölmiðlar spá því að Ingemar Linnéll, sænski landsliðsþjálfarinn í handknattleik, verði neyddur til að segja af sér fyrir mánaðarmótin þar sem Svíum mistókst að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi á næsta ári. Í samningi Linnélls er uppsagnarákvæði sem bæði hann og sænska handknattleikssambandið geta nýtt sér fyrir 30. júní.
Úrslitin í viðureigninni við Ísland eru mikið áfall fyrir Svía, en þetta er í fyrsta skipti frá því byrjað var að halda heimsmeistaramót í handknattleik árið 1938 sem Svíar verða ekki með.
Blaðið Dagens Nyheder segir að hugsanlega hafi leikurinn í Reykjavík í gær, sem Svíar unnu 26:25, verið síðasti stórleikur markvarðanna Tomas Svensson og Peter Gentzel, sem voru bestu menn sænska liðsins í gær. Þá muni þeir Stefan Lövgren og Ljubomir Vranjes hugsanlega einnig hætta að leika með landsliðinu.
Linnéll tók við liðinu árið 2004 og var markmiðið þá að komast á HM árið 2007 og ólympíuleikana í Kína árið 2008. Gullaldarleikmenn Svía, þeir Magnus Wislander og Staffan Olsson, voru báðir í Reykjavík í gærkvöldi og lýstu leiknum, Wislander fyrir útvarpsstöð og Olsson fyrir sjónvarpsstöð. Wislander segir við fréttavef Aftonbladet að ef horft sé á úrslitin gegn Íslendingum telji hann að nýta eigi uppsagnarákvæðið í samningnum við Linnéll. Hins vegar þekki hann ekki samband þjálfarans við leikmennina og vel geti verið að það sé svo gott að ekki borgi sig að láta Linnéll fara. Olsson vildi hvorki svara því játandi né neitandi hvort hann teldi að Linnéll eigi að hætta.
Sjálfur segir Linnéll við Aftonbladet að hann muni hugsa málið á næstu dögum.