Ályktun samþykkt um að hvalveiðibannið sé ónauðsynlegt

Joji Morishita, formaður japönsku sendinefndarinnar á ársfundi hvalveiðiráðsins.
Joji Morishita, formaður japönsku sendinefndarinnar á ársfundi hvalveiðiráðsins. AP

Þjóðir sem styðja hvalveiðar unnu sinn fyrsta sigur á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í kvöld þegar samþykkt var ályktunartillaga um að hvalveiðibannið, sem hefur verið í gildi í 20 ár, sé ekki lengur nauðsynlegt. Ályktunin er ekki bindandi en hún þykir mikill sigur fyrir Japana og aðrar hvalveiðiþjóðir sem vilja að veiðibanninu sé aflétt.

Ályktunartillagan var lögð fram af St. Kitts og Nevis en fulltrúar St. Lucia, St. Vincent, Grenada, Dominica og Antigua voru meðflutningsmenn. Þá skrifuðu Íslendingar, Norðmenn, Japanar og Rússar einnig undir ályktunartillöguna, sem var samþykkt með 33 atkvæðum gegn 32 en eitt ríki sat hjá.

Í ályktuninni segir: „Hvalveiðibannið, sem augljóslega átti að vera tímabundin ráðstöfun, er ekki lengur nauðsynlegt."

Flutningsmennirnir sögðu að ályktunin væri nauðsynleg til að neyða Alþjóðahvalveiðiráðið til að fara eftir stofnsáttmála sínum og stjórna hvalveiðum en ekki banna þær með öllu. Sögðu þeir að nauðsynlegt væri að leyfa hvalveiðar til að viðhalda jafnvæginu vistkerfi sjávar og vernda fiskistofna. „Þetta er vistkerfi þar sem hvalir eru efstir í fæðukeðjunni," sagði Daven Joseph, fulltrúi St. Kitts og Nevis á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins.

„Þetta er eins og að kenna spætum um eyðingu skóganna," sagði Vassili Papastavrou, líffræðingur hjá Alþjóða dýraverndunarsjóðnum. „Aðalástæðan er ofveiði, ekki hvalir."

Umhverfisverndarsinnar voru algerlega andvígir ályktuninni og lýstu vonbrigðum eftir atkvæðagreiðsluna. „Þetta er mesta áfallið sem orðið hefur frá því bannið tók gildi," sagði Kitty Block, lögmaður samtakanna Humane Society International.

„Þetta er sögulegur sigur," sagði Glenn Inwood, talsmaður japönsku sendinefndarinnar. „Það mun ekki líða á löngu þar til bannið verður afnumið."

Að sögn AFP fréttastofunnar vonast Japanar til að geta notað þessa ályktun sér til framdráttar þar sem hún sýni fram á, að fleiri þjóðir vilji aflétta banninu en vilja viðhalda því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert