Femínistafélag Íslands afhenti Morgunblaðinu í dag, 19. júní, hvatningarverðlaunin Bleiku steinana. Auk Morgunblaðsins fá frétta fjölmiðlarnir Blaðið, Fréttablaðið, NFS, RÚV og Viðskiptablaðið hvatningarverðlaun Femínistafélagsins.
Í fréttatilkynningu kemur fram, að Bleiku steinarnir voru fyrst gefnir þann 19. júní árið 2003. Þá voru viðtakendur forseti Íslands, borgarstjóri, biskup Íslands og heilbrigðisráðherra.
Femínistafélag Íslands segir að Bleiku steinarnir séu hvatningarverðlaun. Í þeim felist ekki mat á frammistöðu, en þau sem steinana hljóta eru alltaf í þeirri aðstöðu að geta haft víðtæk áhrif á gang jafnréttismála. Bleiku steinarnir eru hvatning til þeirra til að beita sér á sviði jafnréttismála og þoka málum fram á við, að því er segir í tilkynningu.
„Fjölmiðlar eru oft kallaðir fjórða valdið. Hjá þeim liggja gífurleg völd því þeir stjórna hvað kemur fyrir augu almennings, hvaða skoðanir við heyrum og hverjir fá að koma málefnum sínum á framfæri. Þannig taka fjölmiðlar þátt í að móta almenningsálitið og hafa áhrif á hvað við hugsum og gerum. Ábyrgð þeirra er mikil og hlutverk í samfélaginu stórt. Þess vegna er nauðsynlegt að rétta hlut kvenna í fjórða valdinu.
Fréttafjölmiðlar eru í kjörinni aðstöðu til að koma á breytingum með meðvituðu upplýstu átaki ef viljinn er fyrir hendi. Af þeirri ástæðu völdum við að gefa fréttafjölmiðlum Bleiku steinana í ár í þeirri von að þeir virki sem jákvæð hvatning og minni starfsfólk fréttamiðlanna á hversu mikið það getur áorkað í jafnréttismálum," að því er segir í fréttatilkynningu frá Femínistafélagi Íslands.