21 austurrískur blaðamaður kom saman undir yfirborði stöðuvatnsins Traun í Austurríki og hélt þar blaðamannafund, en það mun vera heimsmet í slíkri uppákomu. Tilefni fundarins var útgáfa nýrrar bókar um köfun.
Blaðamennirnir voru í kafarabúningum og með köfunarbúnað og héldu sig á um fimm metra dýpi. Sérstakur vatnsheldur pappír og vatnsheldir pennar voru brúkaðir til þess að taka niður fréttapunkta og skrifa niður spurningar. Auk þess var sérhannað flettispjald notað til kynningar á bókinni.
Blaðamennirnir ætla að senda útgefendum heimsmetabókar Guinness það sem til þarf til staðfestingar heimsmetinu, en lögbókandi var viðstaddur fundinn. Fyrra heimsmet áttu 15 blaðamenn sem héldu sinn fund í fyrra í Las Vegas.