Fjórir pakistanskir múslímar hengdir fyrir að nauðga kristinni konu

Fjórir pakistanskir múslímar voru hengdir í dag fyrir að hafa nauðgað kristinni konu 1999. Mennirnir voru handteknir skömmu eftir hópnauðgunina í Faisalabad og dómstóll dæmdi þá síðan til dauða. Öllum náðunarbeiðnum mannanna, þ.á m. til Pervez Musharrafs forseta í fyrra, var hafnað.

Mennirnir voru hengdir í fangelsinu í Faisalabad í morgun. Lík þeirra voru síðan afhent ættingjum þeirra, sem biðu fyrir utan fangelsið. Mennirnir voru allir á fertugsaldri.

Kristnir eru lítill minnihluti í Pakistan, þar sem mikill meirihluti íbúanna, sem samtals eru um 150 milljónir, er múslímar. Almennt er þó sambúð hópanna friðsamleg.

Aftur á móti er ofbeldi gegn konum algengt og á hverju ári er mörg hundruð konum nauðgað eða þær jafnvel myrtar. Er þar oftast um að ræða svokölluð sæmdarmorð, þar sem fjölskylda konunnar er ósátt við hegðun hennar.

Í flestum tilvikum sleppa hinir seku við refsingu, ýmist vegna galla í réttarkerfinu eða vegna þess að fórnarlömbin eða ástvinir þeirra vilja ekki leggja fram kæru þar sem miklir fordómar eru ríkjandi gagnvart sæmdarmorðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert