"Þetta er í fjórða sinn sem tívolíið er sett upp við Smáralind en það hefur hlotið frábærar viðtökur undanfarin ár," sagði Theodóra Þorsteinsdóttir markaðsstjóra hjá Smáralind í Kópavogi í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Ferðatívolíið opnaði fyrir viku síðan og mun standa í rúmar sex vikur eða til 13. ágúst.
Þrátt fyrir rigningu fyrstu vikuna þá hefur verið líf og fjör og gestirnir hafa klætt sig eftir veðri. Fyrir utan skotbakka og tæki á borð við „bollana" sem hrista og hræða gesti eins og vera ber er hægt að fá sér sykurkvoðu og annað góðgæti sem tilheyrir.
Tívolíið er á bílastæðinu ofan við Smáralind, á milli Nóatúns og Debenhams. Þetta mun vera 15. árið sem Taylor Tivoli heimsækir Ísland en það er rekið af Bretanum David Taylor.
Tívolí er opið:
Sunnudag - fimmtudags 13:00-22:00
Föstudag 13:00-23:00
Laugardag 13:00-23:00