Rússar handteknir eftir „verslunarferð" í Fjörðinn

Lögreglan í Hafnarfirði handtók 6 rússneska skipverja um sexleytið í gær eftir að þeir höfðu farið hamförum í Firðinum í Hafnarfirði. Að sögn lögreglu fóru mennirnir, sem voru undir áhrifum áfengis, inn í 3 verslanir og ýmist stálu eða gengu út með klæðnað án þess að borga fyrir.

Fimm mannanna voru handteknir í sínu fínasta pússi þegar þeir komu út úr Firðinum en sá sjötti fannst í skipi Rússanna og var hann m.a. í forláta leðurjakka sem hann hafði tekið ófrjálsri hendi.

Mennirnir gistu fangageymslur í nótt og mega eiga von á því að þeirra bíði sektir þegar þeir vakna, bæði af hálfu lögreglu og verslunareigenda. Talið er að fötin sem Rússarnir ýmist stálu eða höfðu á brott hafi kostað um 90 þúsund krónur.

Að sögn lögreglu í Hafnarfirði hefur hún oft þurft að glíma við drykkjulæti í erlendum skipverjum skipa sem leggja í Hafnarfjarðarhöfn en „verslunarferð" sexmenninganna er með því svæsnara sem lögreglan hefur þurft að glíma við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert